Hreyfing

Hreyfing stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan, gleði, snerpu og þori. Umhverfið þarf að bjóða upp á möguleika bæði til gróf- og fínhreyfinga til að styrkja barnið líkamlega, andlega og félagslega úti og inni. Lögð skal áhersla á skipulagðar hreyfistundir að lágmarki einu sinni í viku. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnsins og líkamsvitund. Sjálfsöruggt og ánægt barn á auðveldara með að leika sér og tileinka sér þekkingu. Markviss hreyfiþjálfun hefur einnig áhrif á málþroska og málskilning barna og þar með eykst félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.

Sköpun

Barn hefur mikla þörf fyrir að skapa og er að skapa allar stundir í leik sínum. Mikilvægt er að vinna með og/eða tengja saman fjölbreytt tjáningarform listsköpunar s.s. myndlist, tónlist og leiklist. Lögð skal áhersla á markvissa listsköpun frá tveggja ára aldri að lágmarki einu sinni í viku. Markmiðið er að viðhalda forvitni, sköpunargleði, efla sjálfstraust og ímyndunarafl barnanna. Sjálft sköpunarferlið skiptir meira máli en útkoman. Lögð skal áhersla á að börnin fái tækifæri til að prófa sig áfram með fjölbreyttan efnivið, geri tilraunir og þjálfi upp færni sem leiðir af sér að þau verði viss um eigin getu.

Lubbi finnur málbein

Lubbi finnur málbein er ein leið af mörgum til að efla málþroska barna, læra íslensku bókstafina og hljóðin sem þeir gefa frá sér. Á deildum leikskólans eru sérstakar Lubba stundir þar sem börnin læra ákveðin hljóð sem tengjast bókstöfum. Hvert hljóð á sitt tákn, sögu og lag. Það að auki má finna Lubbaland í leikskólanum þar sem hvert og eitt hljóð/bókstafir á kassa sem hlutum sem byrja á viðkomnandi hljóði.

Blær og vináttuverkefni Barnaheilla

Blær og vináttan er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti og er ætlað börnum á leikskólaaldri. Blær og vináttan þjálfar félagsfærni og samskipti barna sem og stuðlar að góðum skólabrag. Á deildum leikskólans eru sérstakar Blær stundir þar sem börnin fara í litla hópa og kafa í námsefni verkefnsins, ýmist með félagsfærnisögum, nuddstundum og tónlist.




© 2016 - Karellen